Erlent

Landlæknir Breta á von á fleiri Ebólu-tilfellum

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá flugvellinum í Los Angeles, þar sem öryggi hefur verið hert vegna ótta við ebólu.
Frá flugvellinum í Los Angeles, þar sem öryggi hefur verið hert vegna ótta við ebólu. Vísir/AFP
Landlæknir Bretlands, Sally Davies, segist eiga von á því að nokkur Ebólu-tilfelli muni koma upp í Bretlandi á næstu mánuðum. Hún lýsir jafnframt yfir stuðningi við það fyrirkomulag sem á að taka gildi á breskum flugvöllum í næstu viku, þar sem farþegar frá þeim löndum sem illa hafa orðið úti vegna veirunnar verða yfirheyrðir sérstaklega og jafnvel skoðaðir af lækni.

BBC greinir frá. Þessar fyrirhuguðu aðgerðir embættisins hafa verið gagnrýndar og því haldið fram að eingöngu sé um pólitískt sjónarspil að ræða. Davies segir að yfirheyrsla yfir farþegum muni sennilega ekki leiða í ljós mörg tilfelli, ef nokkur, en ferðalangarnir muni hinsvegar fræðast um einkenni sjúkdómsins banvæna og réttu viðbrögðin við sýkingu.

Ebólu-faraldurinn hefur nú grandað rúmlega fjögur þúsund manns frá því í byrjun árs. Þrjú lönd í Vestur-Afríku hafa orðið langverst úti vegna faraldursins, þau Líbería, Gínea og Síerra Leóne.


Tengdar fréttir

Óttast óhugsandi harmleik vegna ebólu

Belgískur læknir sem uppgötvaði ebólu, Peter Piot, segir að ef veiran stökkbreyti sér þá sé líklegt að hún breiðist hraðar út.

Þrjár milljónir á dag

Það kostar Landspítalann minnst þrjár milljónir á sólarhring að sinna manneskju sem talið er að hafi smitast af ebólu. Læknir telur að þetta gerist innan skamms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×