Innlent

Þætti eðlilegt að hleypa Hassan heim fyrst

Bjarki Ármannsson skrifar
Margrét Lára og Hassan giftu sig í mars.
Margrét Lára og Hassan giftu sig í mars. Mynd/Aðsend
„Ég er alls ekki sátt,“ segir Margrét Lára Estherardóttir, eiginkona hins sýrlenska Hassan al Haj, um þá ákvörðun stjórnvalda að veita fjölda sýrlenska flóttamanna hæli hér á landi um leið og maður hennar bíður eftir dvalarleyfi.

Margrét og Hassan giftu sig í mars en honum var vísað úr landi fyrr í mánuðinum. Hann bíður nú í óvissu í Svíþjóð en þau fengu svar frá Útlendingastofnun nú á miðvikudaginn um að úrskurðurinn um að vísa honum úr landi stæði. Það þarf því að kæra úrskurðinn til þess að honum verði breytt.

„Lögmaðurinn okkar kærði úrskurðinn strax,“ segir Margrét. „Við vildum fyrst ekki gera það því við búumst við því að það taki lengri tíma fyrir Hassan að fá dvalarleyfi ef úrskurðurinn er kærður.“

Hún segir þau hjónin hafa beðið upplýsinga frá Útlendingastofnun  nánast frá því að hann var sendur úr landi. Einnig vonuðust þau eftir því að Hassan fengi að snúa aftur þegar ljóst var að þau Abdennour Khebani frá Alsír og Izekor Osazee frá Nígeríu yrðu ekki send úr landi.

Í sömu vikunni og Margrét og Hassan fengu svar um að úrskurðinum um að vísa Hassan úr landi yrði ekki breytt samþykkti ríkisstjórnin tillögu innanríkisráðherra, velferðarráðherra og utanríkisráðherra að taka á móti flóttafjölskyldum frá Sýrlandi. Um tíu til fimmtán manns munu koma til landsins.

„Ég er rosalega ósátt,“ segir Margrét um þessa forgangsröðun. „Mér þætti eðlilegt að hleypa honum heim fyrst. Honum líður illa í Svíþjóð, hann þorir ekki að gefa sig fram við yfirvöld því þá á hann í hættu að vera sendur til baka.“

Margrét segir að sem betur fer eigi Hassan í hús að venda hjá móður sinni og systur í Svíþjóð, þar sem hann sefur á gólfinu. Hún segist tala við hann á hverjum degi og að hann vilji ólmur geta snúið aftur til Íslands. Þau hjónin vita ekki hvenær það verður.

„Það tekur einhvern tíma að láta þetta fara fyrir dóm,“ segir Margrét. „Við vitum ekki neitt.“


Tengdar fréttir

Tekið á móti 10 - 15 flóttamönnum frá Sýrlandi

Innanríkisráðherra segir það gleðiefni að ríkisstjórnin hafi samþykkt að taka á móti flóttafjölskyldum frá Sýrlandi þar sem sérstök áhersla verður lögð á að taka á móti börnum sem hafa slasast eða glíma við önnur veikindi og fjölskyldum þeirra.

Fær engin svör frá íslenskum yfirvöldum

"Mig langar bara að fá að vera á Íslandi og byggja upp líf og framtíð með konunni minni,“ segir sýrlenskur hælisleitandi sem giftur er íslenskri konu, en var engu að síður vísað úr landi fyrr í þessum mánuði.

Miklar breytingar á málefnum hælisleitenda í haust

Meðalmálsmeðferðartími hælisleitenda hér á landi hefur verið um tvö ár en styttist í nokkra mánuði, með breyttum útlendingalögum. Innanríkisráðherra segir breytingarnar verða að veruleika í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×