Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti í kvöld úkraínsk stjórnvöld til þess að beita ekki ofbeldi í deilum stjórnvalda við mótmælendur í landinu. Hann varaði jafnframt við því að ef stigið yrði yfir línuna, þá myndi slíkt hafa afleiðingar.
Obama lét ummælin falla í heimsókn sinni í Mexíkó í dag. Hann gaf til kynna að refsiaðgerðir væru mögulegar gagnvart ófriðaraðilum í Kænugarði.
„Úkraínsk stjórnvöld bera meginþunga ábyrgðar á því að komið sé fram við friðsama mótmælendur á réttan hátt, að úkraínska þjóðin geti komið saman og tjáð sig um sín málefni án ótta við kúgun,“ sagði Obama.
Obama sagði jafnframt að hann vildi að það væri á hreinu bandarísk stjórnvöld muni fylgjast grannt með gangi mála í Úkraínu næstu daga og að mikilvægt væri að mótmælendur sýndu einnig stillingu.
Hann bætti við að Bandaríkin muni reyna að nálgast sjónarmið allra hlutaðeigandi aðila en mikilvægast væri að úkraínska þjóðin geti tjáð vilja sinn. Sagði Obama að hann trúi því að mikill meirihluti úkraínsku þjóðarinnar væri hlynntur inngöngu í Evrópusambandið.
Evrópusambandið mun á morgun funda um ástandið í Kænugarði eftir óeirðirnar sem geisuðu þar síðastliðna nótt, þar sem tugir féllu og meira en þúsund manns særðust í mannskæðustu átökum í Kænugarði frá því forseti landsins, Viktor Janúkovítsj, hafnaði í nóvember að skrifa undir samstarfssamning við Evrópusambandið.
Obama varar við að ekki verði stigið yfir línuna

Tengdar fréttir

Yfir þúsund manns særðust í Kænugarði
Átök milli mótmælenda og lögreglu blossuðu upp í nótt. Að minnsta kosti 25 létust í miðborg Kænugarðs.

Tuttugu og fimm liggja í valnum í Kænugarði
Að minnsta kosti tuttugu og fimm hafa fallið í átökum mótmælenda og lögreglu í Kænugarði í Úkraínu frá því í gær. Óeirðalögreglan gerði í morgun atlögu að strærstu búðum mótmælenda á Sjálfstæðistorginu í miðbænum.

Evrópusambandið íhugar aðgerðir gegn Úkraínu
Að minnsta kosti 26 létu lífið í Kænugarði í átökum á milli lögreglu og mótmælenda í nótt. Forseti landsins hefur lýst yfir þjóðarsorg.

Vopnahlé í Úkraínu
Meðlimir stjórnar og stjórnarandstöðu munu setjast að samningaborðinu.

„Það er verið að drepa saklaust fólk í einni af höfuðborgum Evrópu“
Ofbeldið í Kænugarði var rætt á Alþingi í dag.