Erlent

Yfir þúsund manns særðust í Kænugarði

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Yfir þúsund manns særðust í átökum milli mótmælenda og lögreglu í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í nótt. Þetta fullyrðir fréttastofa danska ríkisútvarpsins. Að minnsta kosti 25 eru látnir, þar af níu lögreglumenn og einn fréttamaður.

Átökin hófust um klukkan fjögur í nótt að staðartíma þegar lögreglumenn gerðu atlögu að stærstu búðum mótmælenda á Sjálfstæðistorginu í miðborginni. Mótmælendur kveiktu í teppum, hjólbörðum og öðru lauslegu til að reyna að halda lögreglu frá búðunum. Eru þetta mannskæðustu átökin frá því mótmælin hófust í borginni í lok nóvember í fyrra.

Dregið hafði úr átökunum undanfarið en þau blossuðu skyndilega upp í gær þegar stjórnarandstöðuþingmenn reyndu að koma í gegn frumvarpi á þinginu sem hefði dregið mjög úr völdum forsetans Viktors Janúkovítsj.

Í myndbandinu hér fyrir ofan, sem kemur frá Reuters-fréttastofunni, má sjá mótmælanda verða fyrir skoti í Kænugarði í gærkvöldi. Í spilaranum hér fyrir neðan má svo fylgjast með beinni útsendingu vefmyndavélar sem beint er að Sjálfstæðistorginu.


Hér fyrir neðan má sjá Twitter-færslur merktar #kiev um leið og þær birtast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×