„Þetta var full stórt miðað við gang leiksins, við héldum vel í þá í fyrri hálfleik þangað til þeir komast yfir með heppnismarki,“ sagði Atli Jóhannsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir leikinn í kvöld.
„Það mark drap andann hjá okkur og svo fáum við annað mark beint í andlitið á okkur í seinni hálfleik. Þeir áttu skilið að vinna en þetta var full stórt.“
Annað mark Inter kom eftir einbeitingarleysi í vörn Stjörnunnar.
„Það var smá einbeitingarleysi hjá okkur og það má ekki gegn jafn sterku liði og Inter, þessi lið refsa manni.“
Lokatölur leiksins endurspegluðu ekki gang leiksins að mati Walter Mazzarri, þjálfar Inter, og var Atli á sömu nótunum.
„Það var ekki fyrr en við færðum okkur framan í stöðunni 2-0 að varnarleikurinn opnaðist hjá okkur og þeir fengu fleiri færi. Það var kannski bara sanngjarnt að þeir næðu marki þarna í lokin, það var óþarfi en kannski sanngjarnt.“
Það var flott stemming á vellinum í kvöld og skemmti Atli sér konunglega fyrir framan troðfullan Laugardalsvöll.
„Þetta var algjörlega frábært og ég tek hatt minn ofan fyrir öllu fólkinu sem mætti. Það var frábært að heyra stúkurnar kalla sín á milli og við erum ekki vanir því að hafa svona marga að styðja okkur. Þetta hlýtur að vera Íslandsmet, það er bara í brekkunni sem fleiri syngja saman,“ sagði Atli léttur.
