Erlent

Óttast upplausn og spillingu ráðastétta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nigel Farage á Evrópuþinginu. Skoðanakannanir sýna að skoðanabræðrum hans muni fjölga á Evrópuþinginu eftir kosningarnar í næsta mánuði.
Nigel Farage á Evrópuþinginu. Skoðanakannanir sýna að skoðanabræðrum hans muni fjölga á Evrópuþinginu eftir kosningarnar í næsta mánuði. Nordicphotos/AFP
Stjórnmálaflokkar hægri sinnaðra andstæðinga Evrópusambandsins draga til sín fylgi frá kjósendum, sem eiga meira sameiginlegt en andstöðuna eina við Evrópusambandið.

Kjósendur þessara flokka hafa almennt harða andstöðu gegn innflytjendum, glæpum og spillingu meðal hálaunaðra valdamanna, en leggja mikla áherslu á að tryggja öryggi og reglu í samfélaginu ásamt því að meta mikils hefðbundin gildi.

Þetta kemur fram í nýbirtri skoðanakönnun, sem gerð var í vetur í Bretlandi, Frakklandi, Belgíu, Hollandi og á Ítalíu. Úrtakið var meira en tíu þúsund manns, en það var hollenska skoðanakönnunarfyrirtækið Motivaction International sem gerði könnunina.

Spurðir voru kjósendur Breska sjálfstæðisflokksins í Bretlandi, Flæmska hagsmunaflokksins í Belgíu, Frelsisflokksins í Hollandi, Þjóðarfylkingar Le Pens í Frakklandi og Norðurbandalagsins á Ítalíu, auk þess sem hinir frekar vinstri sinnuðu kjósendur Fimm stjörnu hreyfingar skemmtikraftsins Beppo Grille á Ítalíu voru spurðir.

„Lykillinn að því að skilja sálarlíf þeirra kjósenda, sem eru tortryggnir gagnvart Evrópusambandinu, er sú tilfinning að standa uppi einn og yfirgefinn ásamt almennu vantrausti,“ segir í skýrslu um niðurstöður skoðanakönnunarinnar. „Þeim finnst oftar að samfélagið hafi brugðist þeim og þeir bera einnig minna traust til annarra.“

Kjósendur þessara flokka koma úr öllum stéttum, en eiga það sameiginlegt að eiga erfitt með að láta enda ná saman og hafa átt erfitt með að takast á við afleiðingar efnahagskreppunnar.

Þeir láta sig almennt umhverfismál, mannréttindi og atvinnuleysi litlu varða, en þeir hafa almennt minni trú en kjósendur annarra flokka á stofnunum á borð við ríkisstjórn og þing, banka, trúarstofnanir, verkalýðsfélög og Sameinuðu þjóðirnar.

Kjósendur Fimm stjörnu bandalagsins á Ítalíu, sem almennt eru lengra til vinstri, virðast heldur hófsamari og framfarasinnaðri en kjósendur hægri flokkanna, sem könnunin náði til, en eiga þó sameiginlega með þeim hina almennu vantrú á stofnunum samfélagsins.

Kosningar til Evrópuþingsins verða haldnar seinni partinn í maí. Skoðanakannanir benda til þess að flokkum efasemdarmanna um Evrópusambandið muni vegna betur en nokkru sinni.

Óljóst hefur hins vegar þótt hvort þeir muni eiga auðvelt með að starfa saman, en þessi könnun bendir til þess að kjósendur þeirra eigi meira sameiginlegt en leiðtogar flokkanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×