Brennan ávarpaði fjölmiðla vegna skýrslu bandaríska þingsins, þar sem pyntingarnar eru sagðar hafa verið grimmilegar og að þær hafi borið engan árangur.
Hann sagði að sannarlega hafi einhverjir starfsmenn stofnunarinnar farið af sporinu hvað varðar pyntingarnar og að þeir hefðu þurft að taka afleiðingum gjörða sinna. Hins vegar sagði hann að CIA hafi gert margt rétt. Á þessum tíma hafi ástandið verið mjög óljóst og búist var við fleiri árásum frá al-Qaeda.
Á vef BBC er haft eftir Brennan að pyntingar hafi komið í veg fyrir árásir, hjálpað Bandaríkjunum að handsama hryðjuverkamenn og bjargað mannslífum. Þó stendur í skýrslunni að aldrei hafi upplýsingar fengist með pyntingum, sem ekki hefði verið hægt að fá með öðrum leiðum.
Þá segir einnig í skýrslunni að upplýsingar sem hafi fengist með pyntingum hafi ekki verið notaðar til að koma í veg fyrir árásir.
Brennan sagði einnig að aðgerðir starfsmanna CIA hafi ekki verið ólöglegar. Þá sagði hann að ekki væri um pyntingar að ræða. Í skýrslunni kemur fram að fangar voru beittir svokölluðum vatnsbrettaaðferðum þar sem köldu vatni var hellt yfir andlit þeirra til að líkja eftir drukknunartilfinningu. Föngum var einnig haldið vakandi um langt skeið eða allt að 180 klukkustundir.
Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindasamtök hafa kallað eftir því að þeir starfsmenn CIA sem komu að pyntingum verði dregnir fyrir dómstóla. BBC segir þó að það sé ekki líklegt að það verði reynt.