Erlent

Vilja draga ráðamenn fyrir dóm

Margir fanganna, sem þangað voru fluttir, sættu pyntingum.
Margir fanganna, sem þangað voru fluttir, sættu pyntingum. nordicphotos/AFP
Bandaríkin Zeid Raad al-Hussein, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, segir að sækja þurfi til saka George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og aðra þá bandaríska ráðamenn og leyniþjónustumenn sem heimiluðu og framkvæmdu pyntingar á árunum 2001 til 2006.

Hann segir engan vafa leika á því að Bandaríkin hafi brotið gegn Alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum. Bandaríkin staðfestu þennan samning árið 1994 og þeim ber nú skylda til þess að draga hina brotlegu til ábyrgðar.

„Í öllum löndum er það þannig að ef einhverjir fremja morð, þá eru þeir sóttir til saka og fangelsaðir. Ef þeir nauðga og framkvæma vopnað rán, þá eru þeir sóttir til saka og fangelsaðir,“ sagði al-Hussein í yfirlýsingu í gær, á alþjóðlegum mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Sama gildir um pyntingar, hvort sem viðkomandi taka sjálfir þátt í pyntingum, gefa öðrum skipanir um að pynta eða gera öðrum auðveldar fyrir að pynta: „Þeir geta ekki bara notið refsileysis vegna pólitískrar hentistefnu.“

Enn er strikað yfir ýmsar upplýsingar í fimm hundruð blaðsíðna skýrslu leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.nordicphotos/AFP
Í sama streng tekur Ben Emmerson, sem er fulltrúi Sameinuðu þjóðanna gagnvart mannréttindum og baráttunni gegn hryðjuverkum: „Sú staðreynd að sú stefna, sem birtist í þessari skýrslu, var heimiluð á æðstu stöðum innan bandarískra stjórnvalda, veitir ekki minnstu afsökun. Þvert á móti styrkir það þörfina á því að draga fólk til ábyrgðar fyrir glæpina,“ segir hann.

Þá segir Kenneth Roth, framkvæmdastjóri alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, að í framtíðinni megi áfram reikna með þeim möguleika að forsetar Bandaríkjanna heimili pyntingar, „nema þetta mikilvæga ferli sannleiksafhjúpunar leiði til þess að embættismenn verði sóttir til saka“.

Fleiri alþjóðleg mannréttindasamtök hafa brugðist við með svipuðum hætti og krefjast þess að bæði bandarískir leyniþjónustumenn og þeir ráðamenn sem heimiluðu og skipuðu fyrir um pyntingar sleppi ekki refsilaust frá því.

Allt eru þetta viðbrögð við fimm hundruð blaðsíðna ágripi af enn lengri skýrslu um pyntingar á vegum bandarískra stjórnvalda. Leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings birti ágripið á þriðjudaginn, og þar koma fram ljótar lýsingar á framferði bandarískra leyniþjónustumanna á árunum 2001 til 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×