Erlent

Leyniþjónusta Bandaríkjanna stundaði grimmilegar pyntingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Demókratar segja pyntingar CIA hafa verið grimmdarlegar.
Demókratar segja pyntingar CIA hafa verið grimmdarlegar. Vísir/Getty
Skýrsla Leyniþjónustunefndar öldungadeildar bandaríska þingsins um pyntingar leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 var birt í dag. Í henni kemur fram að CIA hafi ekki komið hreint fram varðandi pyntingarnar.

Þær upplýsingar sem fengust með pyntingum voru aldrei notaðar til að koma í veg fyrir árásir eða yfirstandandi ógnir. Frá þessu er sagt á vef BBC.

Samantekt Demókrata í nefndinni má sjá hér. Þar kemur fram að CIA hafi veitt stjórnmálamönnum og almenningi ónákvæmar upplýsingar til að fá leyfi til pyntinganna og þeir hafi ranglega sagt að enginn öldungadeildarþingmaður hafi verið á móti þeim.

Þá kemur einnig fram að af þeim 119 sem vitað er að voru pyntaðir höfðu minnst 26 ekki brotið af sér. Þar að auki var þeim haldið mánuðum lengur en tilefni var til.

CIA pyntaði menn meðal annars með því að halda þeim vakandi í allt að 180 klukkustundir, lemja þá og niðurlægja. Þá var ísköldu vatni hellt yfir andlit fanga til að líkja eftir drukknunartilfinningu, svokallað Waterboarding. Þar að auki voru fangar neyddir til að standa klukkutímum saman í óþægilegum stellingum.

Barack Obama stöðvaði pyntingarnar árið 2009, skömmu eftir að hann tók við völdum.

Yfirmaður CIA gaf þó frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem hann heldur því fram að pyntingar stofnunarinnar hafi bjargað mannslífum.

„Þær upplýsingar sem fengust með þessu verkefni voru mikilvægar í að auka skilning okkar á al-Qaeda og hjálpa vörnum okkar gegn hryðjuverkum enn þann dag í dag,“ sagði John Brennan, yfirmaður CIA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×