Erlent

Afsögn sænsku ríkisstjórnarinnar eða nýjar kosningar í kortunum

Atli Ísleifsson skrifar
Leiðtogar sænsku ríkisstjórnarflokkanna ræddu við fjölmiðla í gærkvöldi.
Leiðtogar sænsku ríkisstjórnarflokkanna ræddu við fjölmiðla í gærkvöldi. Vísir/AFP
Sænskir jafnaðarmenn hafa ákveðið að senda fjárlagafrumvarpið ekki aftur til umræðu í fjárlaganefnd þingsins. Þetta þýðir að sænska þingið mun greiða atkvæði um frumvarpið síðdegis í dag þar sem það verður væntanlega fellt.

Fréttaskýrandi sænska ríkissjónvarpsins segir þó enn of snemmt að fullyrða hvort Stefan Löfven forsætisráðherra muni segja af sér embætti.

Þrír möguleikar eru nú í stöðunni. Í fyrsta lagi getur ríkisstjórnin sagt af sér. Forseti þingsins myndi þá trúlega veita Löfven nýtt umboð til að mynda ríkisstjórn. Ný ríkisstjórn yrði þá líklegast mynduð, án aðkomu Græningja sem nú mynda minnihlutastjórn með jafnaðarmönnum. Einnig er möguleiki á að Anna Kinberg Batra, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna, verði falið að mynda nýja stjórn.

Annar möguleiki er að boða til nýrra kosninga. Löfven verður þó að bíða með slíkt til 29. desember þar sem ný ríkisstjórn verður að hafa setið í þrjá mánuði áður en heimilt er að boða til nýrra kosninga. Kosningar yrðu þá að fara fram innan þriggja mánaða, það er í síðasta lagi 29. mars.

Síðasti möguleikinn er að núverandi ríkisstjórnin starfi áfram en samkvæmt fjárlagafrumvarpi bandalags borgaralegu flokkanna. Löfven hefur þegar hafnað þeim möguleika.

Löfven mistókst að fá borgaralegu flokkana sem eru í stjórnarandstöðu á sænska þinginu til þess að fallast á frumvarp ríkisstjórnarinnar að fjárlögum. Þetta varð ljóst eftir fundarhöld í gærkvöldi og ætlar stjórnarandstaðan að kjósa frekar með eigin tillögum en í gær kom í ljós að Svíþjóðardemókratarnir neita að samþykkja fjárlögin.


Tengdar fréttir

Stjórnarkreppa yfirvofandi í Svíþjóð

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, mistókst að fá borgaralegu flokkana sem eru í stjórnarandstöðu á sænska þinginu til þess að fallast á frumvarp ríkisstjórnarinnar að fjárlögum. Þetta varð ljóst eftir fundarhöld í gærkvöldi og ætlar stjórnarandstaðan að kjósa frekar með eigin tillögum en í gær kom í ljós að Svíþjóðardemókratarnir neita að samþykkja fjárlögin.

Ríkisstjórn Löfvens berst fyrir lífi sínu

Forystumenn Svíþjóðardemókrata tilkynntu nú fyrir stundu að þeir muni styðja fjárlagatillögu borgaralegu flokkanna, en til stóð að greiða atkvæði um frumvarpið í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×