Erlent

Kielsen verður landsstjóri á Grænlandi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Meirihluti hefur verið myndaður á grænlenska þinginu undir stjórn Kielsen.
Meirihluti hefur verið myndaður á grænlenska þinginu undir stjórn Kielsen. Vísir / AFP
Kim Kielsen, leiðtogi Siumut, verður næsti formaður landsstjórnarinnar á Grænlandi. Hann leiðir nýja þriggja flokka stjórn Siumuts, Demókrata og Atassut. Stjórnin var kynnt á blaðamannafundi í dag en danska blaðið Politiken greinir frá.

Siumut fékk ellefu menn kjörna í kosningunum sem fram fóru síðastliðinn föstudag. Demókratar náðu inn fjórum og Atassut tvo. Flokkarnir þrír mynda saman þriggja sæta meirihluta. Inuit Ataqatigiit er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, með ellefu þingsæti.

Kielsen tók við forystusætinu í Siumut af Aleqa Hammond, fyrrverandi landsstjóra á Grænlandi, en hún sagði af sér embætti fyrir tveimur mánuðum síðan eftir að upp komst að hún hefði varið fjármunum ríkisins í eigin þágu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×