Erlent

Birtir magnað myndband af Chernobyl úr lofti

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hér er eitt af skotunum úr myndbandinu.
Hér er eitt af skotunum úr myndbandinu.
Breski heimildarmyndagerðamaðurinn Danny Cooke ferðaðist til Pripyat, sem er aðeins nokkrum kílómetrum frá kjarnorkuverinu í Chernobyl, með myndavél og dróna. Hann hefur birt afraksturinn á Vimeo en ferðalagið var á vegum 60 minutes.



Bærinn, sem áður var heimili 50 þúsund manna, var lagður í eyði fljótlega eftir kjarnorkuslysið þann 26. apríl árið 1986. Slysið varð varð 31 einum að bana og sendi geislavirka mengun um alla Evrópu og þá Sovíetríkin.



Myndbandið sem Cooke hefur birt er það fyrsta sem sýnir þetta yfirgefna svæði úr lofti. Myndirnar voru frumsýndar í 60 minutes í síðustu viku en þriggja mínútna útgáfa af því hefur verið gerð aðgengileg á netinu.



Í því má meðal annars sjá Parísarhjól sem ryðgar í yfirgefnum skemmtigarði sem átti að opna aðeins nokkrum dögum eftir kjarnorskuslysið. Cooke sendi drónann inn í byggingar þar sem hann náði einstökum myndum.



„Chernobyl er einn áhugaverðasti og hættulegasti staður sem ég hef komið á,“ segir Cooke í samtali við breska blaðið Guardian. „Það var eitthvað magnað og á sama tíma hræðilegt við þennan stað. Tíminn stóð í stað og það eru minningar um liðna atburði sem fljóta þarna allt í kring.“



Cooke notaði DJI Phantom 2 dróna og Canon 7D til að ná þessum ótrúlegu myndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×