Íslenski boltinn

Ingvar Jónsson samdi við Start

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingvar Jónsson yfirgefur Garðabæinn eftir fjögurra ára dvöl þar.
Ingvar Jónsson yfirgefur Garðabæinn eftir fjögurra ára dvöl þar. vísir/daníel
Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar, er búinn að semja við norska úrvalsdeildarliðið Start til þriggja ára, en þetta fékk Vísir staðfest hjá leikmanninum sjálfum í morgun.

Ingvar hefur verið eftirsóttur á Norðurlöndum eftir frammistöðu sína í Pepsi-deildinni undanfarin misseri, en hann hafnaði samningi frá sænska liðinu Åtvidaberg á dögunum.

Þessi 25 ára gamli Njarðvíkingur hefur varið mark Stjörnunnar síðan 2011 og varð Íslandsmeistari með liðinu í sumar eftir ótrúlegan lokaleik gegn FH.

Ingvar í leik gegn Inter í forkeppni Evrópudeildarinnar.vísir/afp
Hann fékk á sig 21 mark í 19 leikjum og hélt sex sinnum hreinu í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og átti stóran þátt í að Garðabæjarliðið komst loks í Evrópukeppni, en í henni átti hann svo hvern stórleikinn á fætur öðrum.

Ingvar bætti um betur í Pepsi-deildinni í ár og fékk á sig 20 mörk í 21 leik, hélt aftur sex sinnum hreinu og var eftir tímabilið kjörinn besti leikmaður deildarinnar af Pepsi-mörkunum og leikmönnum deildarinnar.

Hjá Start hittir markvörðurinn fyrir tvo aðra Íslendinga; Ísfirðinginn Matthías Vilhjálmsson og Blikann Guðmund Kristjánsson, en báðir hafa spilað með liðinu undanfarin þrjú ár.

Matthías og Guðmundur hafa verið í lykilhlutverki hjá liðinu, en með þá í fararbroddi komst liðið upp úr 1. deildinni árið 2012 og hefur nú haldið sæti sínu í úrvalsdeildinni í Noregi tvö ár í röð.

Ingvar hefur verið viðloðinn landsliðshóp Íslands á þessu ári og þreytti frumraun sína með strákunum okkar fyrr í þessum mánuði þegar hann varði mark Íslands í seinni hálfleik í vináttuleik gegn Belgíu í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×