Erlent

Óttast aukna tíðni mæðradauða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dæmi eru um að mæður þori ekki að fara á sjúkrahús af ótta við að smitast af ebólu.
Dæmi eru um að mæður þori ekki að fara á sjúkrahús af ótta við að smitast af ebólu. Vísir/Getty
Góðgerðarsamtök óttast að ein af hverjum sjö konum muni deyja í barnsburði, eða jafnvel áður en þær eiga, í Síerra Leóne, Líberu og Gíneu. Er þetta vegna þess álags sem er á heilbrigðisþjónustuna í löndunum þremur vegna ebóluveirunnar.

Í frétt Guardian um málið segir að tíðni mæðradauða hafi verið með þeim hærri í heiminum í löndunum þremur áður en ebólu-faraldurinn braust út. Tölurnar fóru þó lækkandi þar sem sífellt fleiri mæður fóru á sjúkrahús til að fæða. Þar var tekið á móti barninu af ljósmóður eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni.  

Vegna ebólunnar hefur ástandið hins vegar farið versnandi. Margir spítalar annast nú aðeins ebólusmitaða. Þá eru dæmi þess að mæður þori ekki að fara á sjúkrahús af ótta við að smitast af sjúkdómnum. Þetta hefur til dæmis leitt til þess að færri mæður fara í mæðraeftirlit.

Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna telur að 800.000 konur muni fæða barn á næstu 12 mánuðum í Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu. Þar af muni 120.000 lenda í einhverjum erfiðleikum á meðgöngu eða í fæðingu sem geti verið lífshættulegir ef sérhæfð læknisþjónusta er ekki fyrir hendi. Mæðradauði gæti þannig aukist verulega verði ekkert að gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×