Fótbolti

Lagerbäck: Lítum gagnrýnum augum á liðið þrátt fyrir velgengnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska landsliðsins, reiknar með erfiðum leik fyrir bæði lið er Tékkland og Ísland eigast við á Doosan-leikvanginum í Plzen.

Bæði lið eru ósigruð eftir þrjár umferðir á toppi A-riðils en Lagerbäck segir að það ríki mikil tilhlökkun í leikmannahópi Íslands, þar sem stemningin sé afar góð.

„Andrúmsloftið í landsliðshópnum er virkilega gott og hef ég ekki tekið eftir því að eitt einasta atvik hafi komið upp á milli þeirra, hvort sem innan vallar eða utan,“ sagði Lagerbäck en viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég hef stundum sagt að þetta er eins og þegar bekkjarfélagar hittast í upphafi skólaárs. Þeim líkar virkilega vel við hverja aðra og samband þeirra er virkilega gott,“ sagði Lagerbäck en hann segir erfitt að meta hversu mikil áhrif þetta hefur á frammistöðu liðsins í leikjum.

„Þetta hefur skapað auðveldara starfsumhverfi fyrir ökkur öll, sérstaklega okkur starfsmennina. Þetta auðveldar hlutina fyrir okkur þjálfarana, sjúkrateymið, Sigga búningastjóra og alla hina. Ég hef alltaf sagt við þá að samband þeirra við leikmenn þurfi að vera fagmannlegt en það skiptir jafn miklu máli að það sé gott.“

Lagerbäck vildi auðvitað ekki gefa upp hvernig byrjunarlið Íslands verður skipað gegn Tékklandi í kvöld en segir vel mögulegt að það verði það sama og í hinum þremur leikjunum í undankeppninni.

„En við þurfum alltaf að velta þessu fyrir okkur og líta gagnrýnum augum á liðið. Þeir leikmenn sem spiluðu gegn Belgíu höfðu ekki spilað mikið saman en liðið stóð sig engu að síður mjög vel.“

„Margir þeirra sýndu að þeir gætu alveg eins átt heima í byrjunarliðinu og það er hlutverk okkar þjálfaranna að líta á hópinn og velta því fyrir okkur hvort að það sé einhver flötur á því sem hægt er að bæta.“

„Við munum ræða þetta eftir síðustu æfinguna og þá kemur í ljós hvaða leikmenn við veljum í byrjunarliðið.“

Hann á von á hörkuleik þar sem leikmenn munu takast á. „Þetta verður ekki ljótur leikur eða neitt svoleiðis en það mun reyna mikið á leikmenn. Tékkneska liðið minnir mikið á það íslenska - þeir eru skipulagðir og hlaupa mikið.“

„Það verður mikil áskorun fyrir okkar leikmenn að vera á tánum allan leikinn því Tékkar ná alltaf að þrengja að andstæðingum sínum. Við verðum því að vera vinnusamir og vera upp á okkar besta bæði í sókn og vörn.“


Tengdar fréttir

Fyrirliðinn ekki lengur flippaði gaurinn í landsliðinu

Aron Einar Gunnarsson hefur margsannað sig sem leiðtogi íslenska landsliðsins innan vallar sem utan. Hann segist stoltur af því að fá að kalla sig fyrirliða þessa hóps og vonar að uppgangurinn sé rétt að byrja.

Kolbeinn: Framherjar verða að halda ró sinni þó illa gangi

Kolbeinn Sigþórsson lætur gagnrýnisraddir ekki setja sig úr jafnvægi. Á ýmsu hefur gengið hjá liði hans, Ajax í Hollandi, en hann segist ánægður þar þó að hann hafi verið hársbreidd frá því að yfirgefa félagið.

Sjáðu fögnuð Færeyjinga í Grikklandi

Færeyjar unnu í gær einn sinn stærsta, ef ekki stærsta sigur í sögu knattspyrnusambandsins þegar liðið vann Grikkland í Grikklandi 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×