Knattspyrnusambandi Tékklands bárust 45 þúsund óskir um miða á leik liðsins gegn Íslandi á Doosan-leikvanginum hér í Plzen annað kvöld.
Þar sem völlurinn tekur tæplega 12 þúsund manns í sæti komast mun færri að en vilja. Áhuginn var einnig mikill hjá Íslendingum sem verða rúmlega 700 talsins á leiknum.
Flestir leikir tékkneska liðsins fara fram á Generali-leikvanginum í Prag, heimavelli Sparta Prag. Hann tekur tæplega 20 þúsund manns í sæti.
Von er á tveimur flugvélum til Tékklands frá Íslandi með stuðningsmönnum strákanna okkar, auk þess sem að Íslendingar koma víða að til að fara á leikinn annað kvöld.
Strákarnir komu til Plzen í gær og tóku sína fyrstu æfingu í borginni á keppnisvellinum í hádeginu í dag. Allir eru leikfærir fyrir leikinn á morgun.
