Fótbolti

Rosicky: Skil ekki af hverju Tottenham seldi Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Tomas Rosicky, leikmaður Arsenal og fyrirliði tékkneska landsliðsins, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á Doosan-leikvanginum í Plzen þar sem hann var spurður út í leik íslenska liðsins.

Liðin mætast hér annað kvöld í toppslag A-riðils undankeppni EM 2016 en bæði lið eru ósigruð og með fullt hús stiga.

„Árangur íslenska liðsins er engin tilviljunn og talar sínu máli. Þetta er samheldið lið og hættulegt. Það sýndi gegn Tyrklandi og Hollandi að þetta verður erfiður leikur.“

Ísland mætti Tékklandi á Laugardalsvelli árið 2001 og þá unnu Íslendingar 3-1 sigur. Rosicky var þá að hefja sinn landsliðsferil en segist bara eiga slæmar minningar frá þeim leik.

„Þeir hafa tekið mörg framfaraskref síðan þá. Árið 2001 spilaði liðið mun einfaldari fótbolta og er allt annar stíll á liðinu í dag. Þeir halda boltanum betur og eru betri í að aðlagast leiknum.“

Hann segir að Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson séu bestu leikmenn íslenska liðsins en hrósaði einnig samvinnu Gylfa Þórs og Arons Einars á miðjunni.

„Báðir spila í ensku úrvalsdeildinni og hafa mikla reynslu þaðan. Það verður frábært að mæta þeim annað kvöld.“

Rosicky var spurður nánar um Gylfa sem fór á kostum er Swansea lagði Arsenal, lið Rosicky, um helgina. Gylfi skoraði eitt marka Swansea í leiknum.

„Hann er aðalmaðurinn í íslenska liðinu. Ég skil ekki af hverju hann fór frá Tottenham enda hefur mér hann alltaf þótt hættulegur leikmaður sem spilaði alltaf vel. Hann hefur nú sýnt allri Evrópu að hann er góður leikmaður.“

Rosicky segist spenntur fyrir leiknum á morgun. „Bæði lið gera sér grein fyrir því að sá sem vinnur þennan leik á morgun tekur risastórt skref að því að ná markmiði sínu. Ég held að þetta verði stórspennandi leikur.“


Tengdar fréttir

Fyrirliðinn ekki lengur flippaði gaurinn í landsliðinu

Aron Einar Gunnarsson hefur margsannað sig sem leiðtogi íslenska landsliðsins innan vallar sem utan. Hann segist stoltur af því að fá að kalla sig fyrirliða þessa hóps og vonar að uppgangurinn sé rétt að byrja.

Kolbeinn: Framherjar verða að halda ró sinni þó illa gangi

Kolbeinn Sigþórsson lætur gagnrýnisraddir ekki setja sig úr jafnvægi. Á ýmsu hefur gengið hjá liði hans, Ajax í Hollandi, en hann segist ánægður þar þó að hann hafi verið hársbreidd frá því að yfirgefa félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×