Erlent

Nýr forstjóri WHO í Afríku skipaður í vikunni

Bjarki Ármannsson skrifar
Margaret Chan, framkvæmdastjóri WHO, tilkynnti um ákvörðun stofnunarinnar í dag.
Margaret Chan, framkvæmdastjóri WHO, tilkynnti um ákvörðun stofnunarinnar í dag. Vísir/AFP
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mun í vikunni skipa nýjan svæðisstjóra yfir Afríku. Stofnunin hefur þegar viðurkennt að viðbrögðin við ebólufaraldrinum í vesturhluta álfunnar hafi engan veginn verið nógu góð og margir segja það löngu tímabært að skipt sé um stjóra.

Útibúið í Afríku þykir það vanmáttugasta af öllum sex útibúum WHO. Í skýrslu sem stofnunin vann innanhúss, en fréttastofan AP hefur undir höndum, kemur fram að stofnunin kennir starfsfólki sínu í Afríku um að ekki hafi rétt verið tekið á ebólufaraldrinum í byrjun. Stór hluti starfsfólksins á svæðinu er sagður skipaður á pólitískum forsendum og gert er grein fyrir mörgum kvörtunum yfir starfi þeirra.

Hver sá sem verður valinn sem nýr svæðisstjóri WHO í Afríku mun sennilega ekki hafa mikil völd í baráttunni gegn ebólu þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nú tekið að sér að reyna að halda faraldrinum í skefjum. Hann gæti hinsvegar tryggt að svipað klúður eigi sér ekki aftur stað í náinni framtíð.

Dr. Luis Sambo er fráfarandi forstjóri WHO í Afríku. Hann hafnaði því að breytinga væri þörf þegar hann tók við starfinu árið 2005 þrátt fyrir að sérfræðingar segi útibúið hafa á sér slæmt orðspor fyrir spillingu og ógagnsæi. Hann hafði yfirumsjón með viðbragðsaðgerðum gegn ebólu.

Í ræðu sinni í dag lét Margaret Chan, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, það vera að gagnrýna stjórnartíð Sambo og þakkaði honum í staðinn fyrir starf hans í þágu stofnunarinnar og velferðar Afríkubúa.


Tengdar fréttir

Ebóla greind í sjötta landi Afríku

Malí er sjötta ríki Vestur-Afríku þar sem upp kemur tilfelli ebólusmits eftir að veiran greindist í dag í smábarni sem nýverið kom til landsins.

Grunur um ebólusmit í New York

Starfsfólk á spítala í New York rannsakar nú hvort læknir í borginni sé smitaður af Ebólu. Þetta kemur fram í frétt hjá Sky News.

Baráttan gegn ebólu að tapast

Samtökin Læknar án landamæra segja að heimsbyggðin sé að tapa í baráttunni gegn ebóluveirunni.

WHO ræðir hertari ferðatakmarkanir

Neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar mun koma saman til að ræða frekari viðbrögð vegna ebólufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×