Erlent

1.900 hafa nú látist úr ebóluveiru í Vestur-Afríku

Atli Ísleifsson skrifar
Fundað verður um ebólufaraldurinn í Genf á morgun.
Fundað verður um ebólufaraldurinn í Genf á morgun. Vísir/AFP
Starfsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) áætla nú að rúmlega 1.900 manns hafi látist úr ebóluveirunni í ríkjum Vestur-Afríku síðustu mánuði.

Margaret Chan, forseti stofnunarinnar, segir að um 3.500 staðfest eða líkleg tilfelli hafi komið upp í Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu og að erfiðleika gangi að ná tökum á útbreiðslunni.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stendur fyrir fundi á morgun þar sem vænlegustu lækningameðferðirnar verða til umræðu og rætt um hvernig mögulegt sé að flýta framleiðslu og prófunum á lyfjum.

Sóttvarnarlæknar, vísindamenn, sérfræðingar og embættismenn frá þeim ríkjum þar sem veiran hefur breiðst út koma saman á fundinum sem haldinn verður í Genf.

Stofnunin hefur áður tilkynnt að rúmlega 20 þúsund manns muni mögulega smitast áður en tök muni nást á útbreiðslunni. Lýsti Chan útbreiðslunni sem þeirri „mestu, alvarlegustu og flóknustu“ sem starfsmenn stofnunarinnar hafa kynnst. Enginn af reyndustu sérfræðingum heims hafa kynnst öðru eins.

Nígerísk stjórnvöld tilkynntu um tvö staðfest tilfelli til viðbótar fyrr í dag, í borginni Port Harcourt. Í frétt BBC segir að tilfellin séu þau fyrstu utan höfuðborgarinnar Lagos, þar sem fimm hafa látist af völdum veirunnar. Er talið líklegt að ebóla kunni að breiðast hraðar út í Port Harcourt en í Lagos.

Talsmenn hjárlparsamtakanna Lækna án landamæra hafa varað við að þörf sé á alþjóðlegri hernaðaríhlutun til að takast á við útbreiðsluna. Viðbrögð til þessa hafi verið mjög ófullnægjandi og heimurinn sé að lúta í lægra haldi fyrir veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×