Enski boltinn

Kemur Rooney meiddur úr banninu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Vísir/Getty
Wayne Rooney er sloppinn úr þriggja leikja banni en svo gæti samt farið að fyrirliði Manchester United geti ekki verið með í Manchester-borgarslagnum um næstu helgi.

Wayne Rooney hefur verið í leikbanni í síðustu þremur leikjum Manchester United eftir að hafa fengið beint rautt spjald á móti West Ham.

Rooney sást haltra út af Old Trafford í gær þar sem hann var ásamt félögum sínum staddur á viðburði fyrir styrktaraðila félagsins. Rooney meiddist þó ekki þar heldur á æfingu liðsins fyrr um daginn.

Manchester United heimsækir nágranna sína í Manchester City á Etihad-leikvanginum á sunnudaginn kemur.

Wayne Rooney mun væntanlega labba beint inn í liðið sé hann leikfær en knattspyrnustjórinn Louis van Gaal lét hafa það eftir sér að einn af kostum þess að vera fyrirliði væri að sá hinn sami ætti alltaf fast sæti í byrjunarliðinu.

United tapaði ekki í leikjunum þremur án Wayne Rooney, vann einn og gerði tvö jafntefli þar á meðal á móti Chelsea um síðustu helgi.

Radamel Falcao spilaði ekki Chelsea-leikinn vegna meiðsla en allt bendir til þess að hann verði orðin leikfær á sunnudaginn. Það kemur síðan í ljós seinna í vikunni hvort að meiðsli Rooney séu alvarleg eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×