Erlent

Norðmenn búa sig undir mikið berghlaup

Atli Ísleifsson skrifar
Mannen er 1.294 metra hátt fjall í sveitarfélaginu Rauma í Romsdal. Búið er að rýma nálæga bæi.
Mannen er 1.294 metra hátt fjall í sveitarfélaginu Rauma í Romsdal. Búið er að rýma nálæga bæi. Vísir/AFP
Norskir jarðfræðingar reikna með að stærðarinnar berghlaup verði í fjallinu Mannen í sveitarfélaginu Rauma næstu klukkustundirnar.

Reiknað er með að um 120 þúsund rúmmetrar af grjóti muni hlaupa en mikil gliðnun hefur orðið í fjallinu síðustu ár. Búið er að rýma nálæga bæi og lest sem gengur undir fjallinu er hætt að ganga.

Mannen er 1.294 metra hátt fjall í Romsdal, um miðja vegu milli Bergen og Þrándheims, og hafa vísindamenn fylgst með fjallinu vegna yfirvofandi berghlaups frá árinu 2009. Í byrjun mánaðarins var áætlað að um 40 þúsund rúmmetrar gætu hlaupið úr um 1.000 metra hæð, en magnið er nú áætlað um 120 þúsund rúmmetrar sem samsvarar um 12 þúsund vörubílahlössum.

Mikil úrkoma síðustu daga hefur valdið því að reiknað er með berghlaupi á hverri stundu. „Rannsóknir sýna að fjallið þolir minni og minni úrkomu. Fjallið verður veikara og veikara,“ segir jarðfræðingurinn Lars Harald Blikra í samtali við Verdens Gang.

Norskir fjölmiðlar hafa sýnt beint frá fjallinu síðustu sólarhringa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×