Erlent

Fjölmennt við útför einræðisherra

Bjarki Ármannsson skrifar
Jean-Clauda Duvalier komst til valda árið 1971, þá aðeins nítján ára gamall.
Jean-Clauda Duvalier komst til valda árið 1971, þá aðeins nítján ára gamall. Vísir/AP
Hundruð manna sóttu jarðarför fyrrum einræðisherrans Jean-Claude Duvalier í Port-au-Prince, höfuðborg Haíti, í gær. Vildu gestir votta honum virðingu sína, þrátt fyrir að fimmtán ára stjórnartíð hans hafi einkennst af spillingu og mannréttindabrotum.

Margir höfðu velt því fyrir sér hvort Duvalier, sem oft gekk undir viðurnefninu Baby Doc, fengi jarðarför í boði ríkisins eftir að hann lést úr hjartaáfalli í síðustu viku. Svo fór að fjölskylda og vinir skipulögðu athöfnina sjálf. Í viðtali við fréttaveituna AP segir Alex Dupuy, háskólaprófessor frá Haítí, að það sé smávægilegur sigur fyrir andstæðinga stjórnar Duvalier að ríkið sæi ekki um að jarðsetja hann, þó fulltrúar forseta og forsætisráðherra landsins hafi mætt í jarðarförina.

Baby Doc komst til valda árið 1971, þá nítján ára gamall, við andlát föður hans, Papa Doc, en sá hafði stjórnað Haítí frá árinu 1957. Þeir feðgar stjórnuðu Haítí með harðri hendi og eru sakaðir um gríðarlega spillingu, ofríki og brot á mannréttindum. Talið er að þeir hafi haft miskunnarlausar hersveitir á sínum snærum sem taldar eru hafa myrt þúsundir manna.

Engin mótmæli áttu sér stað við jarðarför Duvalier en fórnarlömb stjórnartíðar hans skipulögðu samkomu við höfuðstöðvar fyrrum flokks hans.


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir glæpi gegn mannkyninu

Jean-Claude Duvalier, eða Baby Doc eins og hann var kallaður, fyrrverandi einræðisherra á Haiti sem lést í gær eftir hjartaslag átti yfir höfði sér ákæru fyrir glæpi gegn mannkyninu.

Baby Doc látinn

Fyrrverandi einræðisherra Haítí, Jean Claude Duvalier, betur þekktur sem Baby Doc, lést í dag. Doc lést úr hjartaáfalli, 63 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×