Íslenski boltinn

Arnar Grétarsson ráðinn þjálfari Breiðabliks

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson starfaði síðast í Belgíu.
Arnar Grétarsson starfaði síðast í Belgíu. vísir/getty
Arnar Grétarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari Breiðabliks til næstu þriggja ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu Breiðabliks, en Arnar er uppalinn Bliki og spilaði síðast með liðinu árið 2009 þegar það fagnaði sínum fyrsta bikarmeistaratitli.

Undanfarin ár hefur hefur Arnar starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá belgíska liðinu Club Brugge í Belgíu en þar áður sinnti hann sama starfi hjá AEK í Aþenu.

Arnar tekur við starfinu af Guðmundi Benediktssyni sem kvaddi Blika á Twitter fyrr í dag. Guðmundur tók við starfinu af Ólafi Kristjánssyni sem stýrði liðinu frá miðju sumri 2006 þar til hann var ráðinn þjálfari Nordsjælland í sumar.

„Það er mikill fengur að því að fá Arnar aftur til starfa hjá Breiðabliki og fagnaðarefni,“ segir Eysteinn PéturLárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar.

„Arnar hefur mikla reynslu af fótboltanum á stóra sviðinu og þekkir líka vel til starfsins hér í Kópavogi. Um leið þökkum við Guðmundi og Willum fyrir gott starf í þágu félagsins.“

Og Arnar bætir við á heimasíðu Blika: „Ég er gríðarlega ánægður með að hafa tekið þessa ákvörðun að koma aftur heim í Kópavoginn. Þetta er krefjandi en jafnframt mjög spennandi verkefni að halda áfram með og reyna að byggja ofan á þá góðu vinnu sem Ólafur, Guðmundur og Willum hafa unnið undanfarin ár fyrir félagið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×