Erlent

Frænka Reevu frétti af dauða hennar í útvarpinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Foreldar Reevu Steenkamp í dómsal í dag.
Foreldar Reevu Steenkamp í dómsal í dag. Vísir/Getty
Frænka Reevu Steenkamp, Kim Martin, bar vitni í dag í sérstökum vitnaleiðslum þar sem deilt er um hver refsing Oscars Pistorius skal vera en hann var fundinn sekur um manndráp af gáleysi í síðasta mánuði. Hann skaut Reevu, unnustu sína, til bana á heimili þeirra í febrúar í fyrra.

Martin brotnaði niður í vitnastúkunni þar sem hún sagði frá því að hún hefði frétt af því í útvarpinu að Pistorius hefði skotið kærustuna sína til bana. Hún sagðist í örvæntingu sinni hafa vonað að frænka sín væri ekki látin og sagði við eiginmann sinn:

„Ég vona að hann sé að halda framhjá Reevu.“

Martin brást svo í óstöðvandi grát. Gera þurfti hlé á vitnaleiðslunum en þegar þær héldu áfram sagði Martin:

„Nafnið kom hvergi fram í fréttum, það var bara sagt að þetta væri kærastan hans. Ég var að reyna að hringja í Reevu og hún svaraði ekki símanum. Ég öskraði á eiginmann minn.“

Hún hafi svo farið heim til móður sinnar og þá komist að því að Reeva væri látin. Martin sagði dauða Reevu hafa haft afar slæm áhrif á alla í fjölskyldunni, og þá sérstaklega foreldra Reevu sem glímt hafa við ýmis heilsufarsvandamál í kjölfarið. Aðspurð hvers vegna hún vildi bera vitni sagðist Martin gera það til þess að veita frænku sinni rödd.

Vitnaleiðslum í málinu verður haldið áfram á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×