Erlent

Íbúum Borgundarhólms fækkar enn

Atli Ísleifsson skrifar
Kirkja heilags Nikulásar í bænum Rønne á Borgundarhólmi.
Kirkja heilags Nikulásar í bænum Rønne á Borgundarhólmi. Mynd/Wikipedia
Íbúum á dönsku eyjunni Borgundarhólmi heldur áfram að fækka og eru nú orðnir færri en 40 þúsund talsins.

Að sögn yfirvalda voru skráðir íbúar 39.922 á mánudaginn og er það í fyrsta sinn í meira en hundrað ár sem íbúar mælast færri en 40 þúsund.

Íbúar voru flestir um 49 þúsund á sjöunda áratug síðustu aldar, en þá snerist þróunin við og íbúum tók að fækka. Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að allt frá þeim tíma hafi 40 þúsund manna mörkin verið álitin mjög táknræn - tákn um þann ótta að ekki sé mögulegt að bjarga eyjunni færi íbúafjöldinn undir 40 þúsund.

Fyrrverandi borgarstjórinn Thomas Thors segist hryggur vegna þróunarinnar, en segir hana þó ekki koma á óvart. Í byrjun þessarar aldar hafði hann haft umsjón með að sameina Borgundarhólmsamt og fimm sveitarfélög á eyjunni í eitt, stærra sveitarfélag, þar sem sveitarfélögin á eyjunni hafi verið of smá til að starfa á skilvirkan hátt.

Fæðingartíðni síðustu ár hefur farið úr um 600 fæðingum á ári í tæpar 250. Á þeim tíma bjuggu 44.500 manns á eyjunni, en tíundi hver maður hefur flutt á brott síðan.

Thors segir að nauðsynlegt sé að berjast áfram fyrir að skapa aukin atvinnutækifæri á eyjunni. Hann segir ekki hægt að sveitarfélagið dragi vagninn eitt og vill Thors meina að stjórnmálamenn eyjarinnar verði að krefjist aukinnar fjárveitingar frá ríki til sveitarfélagsins.

„Þetta snýst ekki um að við séum að betla peninga. Þeir staðir í landinu sem búa við vöxt eru skyldug til að aðstoða við að tryggja almennileg búsetuskilyrði á einangruðu svæði eins og Borgundarhólmi,“ segir Thors.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×