Erlent

Úkraínumenn hyggjast sækja um ESB-aðild innan sex ára

Atli Ísleifsson skrifar
Petró Pórósjenko Úkraínuforseti.
Petró Pórósjenko Úkraínuforseti. Vísir/AFP
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti segist ætla að kynna víðtæka umbótastefnu úkraínskra stjórnvalda síðar í dag sem muni gera landinu kleift að sækja um aðild að Evrópusambandinu innan sex ára.

Úkraínuþing staðfesti um miðjan mánuðinn tímamótasamstarfssamning við ESB þó að ákveðið var að fríverslunarákvæði samningsins taki ekki gildi fyrr en árið 2016. Var það gert til að kaupa sér frið hjá Rússum sem segja samninginn skaða rússneskan markað.

Pórósjenkó ræddi við úkraínska dómara í morgun og sagðist ætla kynna framtíðarsýn sína á fréttamannafundi síðar í dag. Sagði hann umbæturnar felast í sextíu mismunandi áætlunum sem muni gera Úkraínu kleift að sækja um aðild að ESB innan sex ára.

Í frétt Reuters kemur einnig fram að forsetinn hafi greint frá því að í fyrsta inn í marga mánuði hafi enginn látist eða særst í átökum í landinu síðastliðinn sólarhring og sé þetta í fyrsta sinn í marga mánuði sem slíkt gerist. Sagði hann vopnahléssamkomulagið loksins virka sem skyldi.

Áætlað er að rúmlega 3.200 manns hafi látist í átökum milli úkraínskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinna frá því að átök hófust í apríl síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×