Erlent

Norðmenn hlaða í stærstu flugeldasýningu heims

Atli Ísleifsson skrifar
Ætlunin er meðal annars að mynda rísastóran norskan fána á himninum til að minnast 200 ára afmæli norsku stjórnarskrárinnar.
Ætlunin er meðal annars að mynda rísastóran norskan fána á himninum til að minnast 200 ára afmæli norsku stjórnarskrárinnar. Vísir/AFP
Eftir sex mánaða undirbúning hefur norski verslunarmaðurinn Frank Abildsnes nú útvegað sér öll tilskilin leyfi til að standa fyrir stærstu flugeldasýningu heims í Sogni á suðurströnd Noregs.

Sýningin verður laugardaginn 29. nóvember næstkomandi og vonast Abildsnes til að allt að 10 þúsund manns komi til að verða vitni af sjónarspilinu.

Núverandi heimsmet var sett síðasta gamlárskvöld í Dubai en nú lítur úr fyrir að heimsmetið muni ekki standa mikið lengur.

„Þeir kveiktu í 480 þúsund flugeldum á sex mínútum í Dubai. Við ætlum að kveikja í rúmlega 530 þúsund flugeldum á jafnlöngum tíma,“ segir Abildsnes í samtali við Kristiansand Avis.

Abildsnes segir að heimsmetstilraunin muni krefjast mikillar tækni og vonast hann til að fulltrúar frá Heimsmetabók Guinness láti sjá sig. „Þetta verða sem sagt 90 þúsund skot á mínútu, eða 1.500 á sekúndu.“

Til stendur að nota 3.300 kíló af sprengiefnum og er ætlunin að mynda risastóran norskan fána á himninum til að hylla 200 ára afmæli norsku stjórnarskrárinnar, sem tók gildi 17. maí 1814.

Abildsnes viðurkennir að þetta sé mjög kostnaðarsamt verkefni en vonast til að styrktaraðilar aðstoði við að halda þessu réttu megin við núllið. Segir hann að  mögulegur hagnaður muni renna óskertur til Rauða krossins.

Dagskráin fyrir 29. nóvember er enn ekki komin endanlega á hreint, en bæjarbúar munu kveikja á jólatrénu um miðjan dag og svo hefst flugeldasýningin á slaginu 18.

Á myndbandinu að neðan má sjá núverandi heimsmet sem sett var í Dubai um síðustu áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×