Erlent

Tók upp daglegt líf í sýrlenskri borg á valdi IS

Atli Ísleifsson skrifar
Í myndbandinu sést meðal annars til konu með slæðu sem ber AK-47 hríðskotabyssu á öxlinni á sama tíma og hún leiðir barn út á leikvöll.
Í myndbandinu sést meðal annars til konu með slæðu sem ber AK-47 hríðskotabyssu á öxlinni á sama tíma og hún leiðir barn út á leikvöll.
Franska sjónvarpsstöðin TV2 sýndi fyrr í vikunni myndband sýrlenskrar konu þar sem hún sýnir brot úr daglegu lífi í sýrlensku borginni Raqqa sem er eitt helsta vígi IS-samtakanna.

Konan klæðist niqab, andlitsblæju sem hylur allt nema augun, og myndar með falinni myndavél. Myndbandið var tekið upp í febrúar og apríl og má þar sjá vopnaðar konur og menn á götum borginnar.

Í frétt Telegraph segir að meðal annars sjáist til konu með slæðu sem ber AK-47 hríðskotabyssu á öxlinni á sama tíma og hún leiðir barn út á leikvöll.

Á myndbandinu sjást og heyrast orðaskipti milli konunnar með myndavélina og manns sem stöðvar bíl og segir konunni að blæja konunnar hylji andlitið ekki nægilega vel.

Þá má sjá myndskeið með frönskum konum sem eru í sambandi við franska ættingja sína á netkaffihúsi. Konurnar fullyrða að þær séu hamingjusamar og að ekki komi til greina að snúa aftur til Frakklands, þó að ættingjarnir lýsi yfir miklum áhyggjum og biðji þær um að koma heim.

Að sögn frönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 hafa fjöldi franskra kvenna lagt leið sína til Sýrlands til að vera með í uppreisnarsveitum IS. Segir að um 150 franskar konur hafi haldið til Sýrlands af þeim sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×