Erlent

Leiðtogar bresku flokkanna halda til Skotlands

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins og Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra og formaður Frjálslynda flokksins, reyna nú að koma í veg fyrir að 307 ára samband Bretlands og Skotland renni sitt skeið á enda.
David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins og Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra og formaður Frjálslynda flokksins, reyna nú að koma í veg fyrir að 307 ára samband Bretlands og Skotland renni sitt skeið á enda. Vísir/AFP
Leiðtogar þriggja stærstu flokkanna í Bretlandi munu halda til Skotlands til að styðja við bakið á kosningabaráttu sambandssinna í aðdraganda kosninganna um mögulegt sjálfstæði Skotlands sem fram fara þann 18. september.

David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, og Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, hafa aflýst vikulegum fyrirspurnartíma í þinginu vegna málsins. Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra og formaður Frjálslynda flokksins, mun einnig taka þátt í baráttunni og reyna að koma í veg fyrir að þetta 307 ára samband renni sitt skeið á enda.

Í frétt BBC segir að Alex Salmond, leiðtogi skoskra sjálfstæðissinna, segi þremenningana vera þá bresku leiðtoga sem notið hafa minnst trausts í sögunni og spáir því að heimsókn þeirra til Skotlands muni einungis auka á stuðning við sjálfstæði landsins.

Salmond skoraði á Cameron í kappræður fyrir kosningarnar sem fram fara á fimmtudaginn eftir rúma viku. Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að hnífjafnt sé milli fylkinga.

Cameron biðlaði til Skota að vera áfram í sambandi við Breta í grein sem birtist í Daily Mail í dag. Sagði Cameron að farsæl framtíð Skotlands væri ekki einungis háð áframhaldandi sambandi við Bretland, heldur einnig að þeir öðluðust aukin völd í eigin málum.

Cameron sagði í greininni Bretland vera dýrmætt og sérstakt land. „Þetta er það sem er í húfi. Enginn í Skotlandi ætti að vera í vafa um það. Við viljum sárlega að þið verðið áfram með okkur; við viljum ekki að þessi fjölskylda þjóða sundrist,“ og bætti svo við að ef Bretland sundraðist, þá yrði breytingin varanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×