Erlent

Vaknaði úr dái og kunni kínversku

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
McMahon kunni allt í einu kínversku.
McMahon kunni allt í einu kínversku.
Ástralinn Ben McMahon frá Melbourne talaði reiprennandi kínversku þegar hann vaknaði úr dái eftir bílslys. McMahon lenti í bílslysi fyrir tveimur árum síðan og var í dái í viku. Foreldrar hans óttuðust að hann myndi ekki vakna úr dáinu. En þegar það gerðist var kínversk hjúkrunarkona það fyrsta sem hann sá. Hann talaði þá við hana mandarín, sem er útbreiddasta mállýskan í Kína.

McMahon hafði áður lært kínversku en hafði aldrei náð að tala hana eins og innfæddur. Eftir slysið var eins og eitthvað hefði gerst; hann gat talað eins og innfæddur. Fyrstu dagana eftir að hann vaknaði gat hann einungis tjáð sig á kínversku en náði svo fljótt aftur tökum á enskunni.

Læknar vita ekki hver orsökin af þessari tungumálakunnáttu er.

Í kjölfar slyssins flutti McMahon til Kína þar sem hann lærir, auk þess sem hann stýrir sjónvarpsþætti og starfar sem leiðsögumaður. Kínverskir vinir hans segja McMahon tala nánast gallalausa kínversku og segja hann tala bestu kínversku sem þeir hafi heyrt frá aðkomumanni.

Mál McMahon hefur vakið mikla athygli víða um heim og er nú til umræðu í erlendum fjölmiðlum, eftir að hann kom fram í sjónvarpsviðtali í Ástralíu fyrr í september. Viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×