Erlent

Hæsti hundur í heimi dauður

Atli Ísleifsson skrifar
Seifur bjó í bænum Kalamazoo í Michigan-ríki í Bandaríkjunum og var um 75 kíló að þyngd.
Seifur bjó í bænum Kalamazoo í Michigan-ríki í Bandaríkjunum og var um 75 kíló að þyngd. Vísir/AP
Hæsti hundur í heimi drapst í síðustu viku, tveimur mánuðum fyrir sex ára afmælisdag sinn.

Hundurinn Seifur var af tegundinni Stóri Dani og mældist 218 sentimetra hár þegar hann stóð á afturfótum og komst í Heimsmetabók Guinness árið 2012.

Seifur bjó í bænum Kalamazoo í Michigan-ríki í Bandaríkjunum, var um 75 kíló að þyngd og með 112 sentimetra axlarhæð.

Seifur var þekktur í heimabæ sínum og fór eigandi hans reglulega með hann í skóla og sjúkrahús til að gleðja nemendur og sjúklinga.

Í frétt Guardian kemur fram að eigandi Seifs, Kevin Doorlag, segi Seif hafa að jafnaði étið um 13,6 kíló af hundamat yfir tveggja vikna tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×