Íslenski boltinn

Ólafur: Hefði viljað sjá tvo Valsara fara út af

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ólafur Þórðarson var ekki sáttur við þá meðferð sem Aron Elís Þrándarson fékk í kvöld.
Ólafur Þórðarson var ekki sáttur við þá meðferð sem Aron Elís Þrándarson fékk í kvöld. Vísir/Stefán
Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings var allt annað en sáttur við þá meðferð sem Aron Elís Þrándarson fékk hjá Valsmönnum í 1-1 jafntefli liðanna í kvöld í Pepsí deild karla í fótbolta.

„Það leit klárlega þannig út. Ég ætla ekki að saka þá um það en það þannig út og það sáu það allir sem voru á vellinum,“ sagði Ólafur Þórðarson aðspurður hvort hann teldi að upplegg Vals hafi verið að sparka Aron Elís Þrándarson út úr leiknum.

„Þeir fá fjölda gulra spjalda fyrir að sparka Aron út og alltaf sitt hver maðurinn. Það lítur út fyrir að hafa verið skipulagt og það endaði með því að hann lenti á spítala.

„Mér fannst dómarinn alveg gera í buxurnar. Það stendur skýrum reglum í  lögum KSÍ að aftan í brot eins og þeir voru að taka trekk í trekk eru rautt spjald. Ég hefði viljað sjá tvo Valsara fara út af í dag.

„Hann traðkar aftan á honum, í hásinina og inn í ökklann. Þetta er ljótt og hann er uppi á spítala fyrir vikið,“ sagði Ólafur um brotið þegar Iain Williamson brýtur á Aroni Elís með þeim afleiðingum að hann þarf að fara útaf.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að við lögðum mikla vinnu í þennan leik og leikmennirnir börðust eins og ljón. Ef við hefðum verið aðeins klókari þá hefðum við tekið öll stigin.

„Þeir nálguðust okkur ekki í dag. Það eru níu stig í pottinum hjá þeim og fimm stig á milli okkar og við þurfum að hafa okkur alla við til að landa þessu Evrópusæti,“ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×