Erlent

Sænsku ríkisstjórnarflokkarnir í sókn

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna, og Fredrik Reinfeldt, formaður Moderaterna, vilja báðir gegna embætti forsætisráðherra Svíþjóðar að kosningum loknum.
Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna, og Fredrik Reinfeldt, formaður Moderaterna, vilja báðir gegna embætti forsætisráðherra Svíþjóðar að kosningum loknum. Vísir/AFP
Nýjustu skoðanakannanir benda til að mun mjórra verði á munum milli fylkinga í sænsku þingkosningunum en áður var talið. Svíar ganga að kjörborðinu næstkomandi sunnudag.

Rauðgrænu stjórnarandstöðuflokkarnir hafa mælst með um tíu prósenta forskot síðustu mánuði en í nýrri könnun Novus fyrir TV4 mælist forskot Jafnaðarmannaflokksins, Umhverfisflokksins og Vinstriflokksins á ríkisstjórnarflokkana fjóra einungis fimm prósent.

Könnunin er í samræmi við aðra nýlega könnun United Mindes fyrir Aftonbladet þar sem forskotið mælist rúm fjögur prósent. Munurinn á fylkingunum hefur ekki mælst minni síðan 2012.

„Jafnaðarmenn geta ekki verið jafnöruggir um kosningasigur og áður,“ segir stjórnmálafræðingurinn Felix Åberg.

„Nú er raunverulegur möguleiki fyrir okkur að sigra,“ segir Kent Persson, framkvæmdastjóri Moderaterna, flokks Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra í samtali við Expressen.

Kristilegir demókratar, Þjóðarflokkurinn og Miðflokkurinn bæta allir við sig fylgi í könnun Novus. Miðflokkurinn bætir við sig 1,8 prósent og hefur fylgi flokksins ekki mælst meira síðan 2010. Er aukningin fyrst og fremst rakin til góðrar frammistöðu formannsins og atvinnuvegamálaráðherrans Annie Lööf í kappræðum formanna flokkanna í aðdraganda kosninganna.

Hinir borgaralegu ríkisstjórnarflokkar mælast nú saman með 41,3 prósent fylgi, en þeir rauðgrænu með 46,3 prósent. Svíþjóðardemókratar, sem standa utan bandalaga, mælast með 9,5 prósenta fylgi.

Niðurstöður skoðanakönnunar Novus  (framkvæmd 3.-7. september 2014)

Borgaralegu flokkarnir

Moderaterna 22,4 prósent

Þjóðarflokkurinn 6,5 prósent

Miðflokkurinn 6,9 prósent

Kristilegir demókratar 5,5 prósent

Rauðgrænu flokkarnir

Jafnaðarmannaflokkurinn 30,6 prósent

Umhverfisflokkurinn 8,6 prósent

Vinstriflokkurinn 7,1 prósent

Aðrir

Svíþjóðardemókratar 9,5 prósent

Feminískt frumkvæði 2,2 prósent

10,9 prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×