Enski boltinn

Balotelli genginn í raðir Liverpool

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mario Balotelli verður númer 45 hjá Liverpool
Mario Balotelli verður númer 45 hjá Liverpool vísir/getty
Mario Balotelli er genginn til liðs við Liverpool en félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni rétt í þessu. Balotelli sem er 24 árs gamall gengur til liðs við Liverpool frá AC Milan.

Balotelli sem er ítalskur landsliðsmaður lék um tíma með Manchester City áður en hann gekk í raðir AC Milan í janúarglugganum 2013. Balotelli fór vel af stað með AC Milan en hann lék í heildina 54 leiki með ítalska stórveldinu og skoraði í þeim 30 mörk.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur leitað að nýjum framherja undanfarnar vikur eftir að félagið seldi Luis Suárez til Barcelona fyrr í sumar. Voru leikmenn á borð við Falcao, Edinson Cavani og Karim Benzema orðaðir við félagið um tíma.

Þrátt fyrir að Rodgers hafi talið mönnum trú um að Liverpool hafi ekki haft áhuga á Balotelli í júlí á blaðamannafundi kom í ljós fyrir helgi að Balotelli myndi ganga til liðs við Liverpool.

Balotelli hitti nýju liðsfélaga sína í dag en hann verður meðal áhorfenda þegar liðsfélagar hans mæta Manchester City, fyrrum liðsfélögum Balotelli í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað. Liverpool er eitt af bestu liðum Englands og fótboltinn hér er mjög góður. Þetta er frábært lið með mikið af ungum leikmönnum. Þess vegna kom ég hingað,“ segir Mario Balotelli á heimasíðu félagsins.




Tengdar fréttir

Balotelli má ekki við því að mistakast

Mino Raiola umboðsmaður Mario Balotelli sem er við það að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Liverpool segir að ítalski framherjanum megi ekki mistakast í Bítlaborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×