Íslenski boltinn

ÍBV sektað um 150.000 fyrir kynþáttaníð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Farid Zato í leik með KR
Farid Zato í leik með KR vísir/daníel
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfesti við Vísi nú rétt í þessu að ÍBV hefur verið sektað um 150.000 krónur vegna brot á 16. grein reglugerðar KSÍ sem fjallar um fordóma af ýmsu tagi og refsingu vegna þeirra.

Stuðningsmenn ÍBV gerðu sig seka um kynþáttaníð í garð FaridsZato, miðjumanns KR, í bikarleik Eyjamanna gegn KR í lok síðasta mánaðar, en dómari leiksins, Gunnar Jarl Jónsson, skilaði inn skýrslu þess efnis.

„Við erum komnir með úrskurð frá KSÍ, en lögfræðingar okkar eru að skoða málið. Það kemur yfirlýsing frá okkur síðar í dag,“ sagði Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, við Vísi um málið.

Aðspurður hvort hann væri ósáttur við úrskurðinn vildi hann engu svara heldur endurtók að Eyjamenn myndu svara með yfirlýsingu síðar í dag.

16. grein aga- og úrskurðarmála var tekin í notkun fyrr í sumar, en hún var sett inn vegna tilskipunar Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Nýja ákvæðið tekur á mismunun og á að leggja áherslu á að taka fast á hvers kyns mismunun eða fordómum.

Ákvæðið er þýðing á ákvæði í agareglugerð FIFA sem öllum knattspyrnusamböndum innan FIFA ber að taka upp, en öllum aðildarfélögum KSÍ var sent dreifibréf um tilkomu nýja ákvæðisins og hvaða viðurlög það hefur í för með sér.

Eyjamenn eru aðrir sem fá dóm eftir nýju reglugerðinni, en fyrr í sumar var leikmaður Víðis í Garði úrskurðaður í fimm leikja bann og fékk félagið 100.000 króna sekt vegna kynþáttaníðs sem hann var úrskurðaður í leikbann fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×