Íslenski boltinn

Nánast uppselt á leik Stjörnunnar og Inter

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Silfurskeiðin og aðrir knattspyrnuáhugamenn fylla greinilega Laugardalsvöllinn á miðvikudaginn.
Silfurskeiðin og aðrir knattspyrnuáhugamenn fylla greinilega Laugardalsvöllinn á miðvikudaginn. vísir/getty
Það er svo gott sem uppselt á leik Stjörnunnar og Inter í umspili Evrópudeildarinnar í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvellinum klukkan 21.00 á miðvikudaginn í næstu viku.

Áhuginn á leiknum virðist ævintýralegur, en árskortahafar Stjörnunnar keyptu 6.000 miða þegar miðasala opnaði fyrir þá í gær.

Um 4.000 miðar fóru í almenna sölu á miði.is í morgun og seldist stærsti hluti þeirra upp á fyrstu fimmtán mínútunum, að sögn Victors Inga Olsens, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Stjörnunnar.

„Þetta er búið að vera rosalegt. Við vorum nánast í slag við internetið og prentarann í morgun,“ segir hann hress og kátur í samtali við Vísi.

Örfáir miðar eru eftir á leikinn, en Victor Ingi segir svo nokkra miða til viðbótar skila sér inn á miði.is seinna í dag.

„Það eru stök sæti svona hér og þar, en það er ekki lengur hægt að kaupa miða þar sem tveir og tveir sitja saman,“ segir Victor Ingi Olsen.

Hér má reyna að kaupa síðustu miðana á leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×