Enski boltinn

Herrera samdi við United til fjögurra ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ander Herrera í rauðu á Old Trafford í dag.
Ander Herrera í rauðu á Old Trafford í dag. Mynd/mufc
Spænski miðjumaðurinn Ander Herrera er orðinn leikmaður Manchester United en hann kemur til félagsins frá Athletic Bilbao á Spáni.

Bilbao hafnaði fyrsta tilboði Manchester United, eins og greint var frá í morgun, en þegar tilboð sem mætti riftunarverði kappans upp á 36 milljónir evra kom inn á borð spænska félagsins gat það ekki hafnað því.

Herrera skrifaði undir fjögurra ára samning við United með möguleika á að bæta við einu ári, en hann er fjórði dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Þessi 24 ára gamli miðjumaður hefur verið í Manchester undanfarna daga að ganga frá sínum málum og fá skoðunarferð um æfingasvæðið sem og Old Trafford-leikvanginn.

Herrera var í herbúðum Bilbao í þrjú ár en hann kom þangað frá Real Zaragoza árið 2011. Hann spilaði 128 leiki fyrir Athletic og skoraði ellefu mörk.

„Það er draumi líkast að semja við Manchester United. Ég spilaði með Athletic á Old Trafford í Evrópudeildinni og ég get með sanni sagt að það var einn af hápunktum ferils míns hingað til. Ég kom hingað á þriðjudaginn og er nú spenntur fyrir því að búa í Manchester. Ég get ekki beðið eftir fyrsta leik. Öllum hjá Bilbao vil ég þakka fyrir stuðninginn,“ segir Ander Herrera á vef Manchester United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×