Erlent

Treystir sér í forsetaembættið

Bjarki Ármannsson skrifar
Marco Rubio, annar tveggja fulltrúa Florida-ríkis í öldungadeild Bandaríkjanna, segist í viðtali við ABC um helgina vera reiðubúinn í að takast á við embætti forseta landsins. Rubio hefur verið orðaður við frambjóðandastöðuna hjá Repúblikanaflokknum í næstu forsetakosningum þrátt fyrir að vera aðeins 42 ára gamall og á sínu fyrsta kjörtímabili í öldungadeildinni.

„Ég er tilbúinn,“ sagði Rubio í viðtalinu. „Eitt sem margir átta sig kannski ekki á er að ég hef núna starfað í þágu almennings í að verða fjórtán ár. Svo tel ég að það skipti miklu máli að forsetinn hafi skýra hugmynd um hvert landið þarf að stefna og hvernig á að koma því þangað.“

Nýleg skoðanakönnun bendir til þess að fylgi Rubio hafi fallið talsvert undanfarna daga. Í viðtalinu spaugast hann að niðurstöðum könnunarinnar og segir að það virðist vera bölvun á því að birtast á forsíðu TIME-tímaritsins, líkt og hann gerði í febrúar síðastliðnum.

„Ég hef litlar áhyggjur af skoðanakönnunum,“ sagði Rubio. „Ef að maður býður sig fram til forseta eyðir maður miklum tíma með almenningi að skýra stefnumál og þessar tölur geta þá hoppað bæði upp og niður.“

Aðspurður hvort hann sé hæfur frambjóðandi til forseta segir Rubio mikið af frambærilegu fólki í Repúblikanaflokknum.

„Spurningin er: Sýn hvers mun flokkurinn okkar fylgja?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×