Erlent

Vilja afsögn ráðherra fyrir að syngja ekki þjóðsönginn

Bjarki Ármannsson skrifar
80 prósent sögðust vilja að Taubira segði af sér í nýlegri netkosningu.
80 prósent sögðust vilja að Taubira segði af sér í nýlegri netkosningu. Vísir/AFP
Stjórnarandstaðan í Frakklandi kallar um þessar mundir eftir því að Christiane Taubira, dómsmálaráðherra landsins, segi af sér eftir að hún neitaði að taka undir franska þjóðsönginn á athöfn um helgina sem minntist afnáms þrælahalds.

The Guardian fjallar um þetta. Jean-Pierra Copé, formaður UMP-flokksins, og Marine Le Pen, formaður Front national, gagnrýndu bæði harðlega þessa ákvörðun Taubira, sem og yfirlýsingu hennar á Facebook í kjölfarið. Þar sagði hún að sum tilefni hæfðu frekar hugleiðingu „heldur en karaókíi á sviði.“ Hún sagði einnig þjóðsöng Frakklands, byltingarsönginn Le Marseillaise, vera misnotaðasta lag landsins.

Taubira er fædd í Frönsku Gvæjönu og hefur oft mátt þola fordómafullar persónuárásir síðan hún tók við embætti. Le Pen sagði í tilkynningu að Taubira hefði með því að neita að taka undir sönginn sýnt „sitt sanna andlit“ og að þetta væri táknrænt fyrir hvernig hin vinstrisinnaða ríkisstjórn landsins „liti niður á Frakkland.“

Stjórnarandstöðuleiðtogar virðast ekki vera þeir einu sem eru ósáttir við hegðun Taubira. Í netkosningu sem tímaritið Le Point stóð fyrir sögðu áttatíu prósent þeirra tólf þúsund sem kusu að hún ætti að segja af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×