Erlent

Heppnasti óheppni maður í heimi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frane Selak eftir að hann vann í lottói.
Frane Selak eftir að hann vann í lottói.
Króatinn Frane Selak er sagður hafa sloppið sjö sinnum frá atburðum sem hefðu átt að ganga af honum dauðum. Þar að auki vann Frane um eina milljóna dala, eða um 113 milljónir króna í lottó árið 2003.

Hann mun nú vera reiður yfir teiknimynd sem gerð var um líf hans. Sagt er frá þessu á vef BBC, en þar er tekið fram að saga hans hafi ekki verið staðfest. Hún hafi þó birst á hinum ýmsu miðlum, eins og til dæmis Telagraph.

Saga hans er mjög ótrúleg og líklegt er að hún sé ekki fullkomlega sönn. Árið 1962 er Frane sagður hafa verið í lest sem fór af sporunum og út í á. Margir létust í slysinu sjálfu eða drukknuðu í ánni. Frane lifði slysið af og komst handleggsbrotinn í land.

Árið 1963 á hann að hafa verið í sinni fyrstu og einu flugferð, þegar báðir hreyflar vélarinnar drápu á sér. Hurð vélarinnar fauk upp og Frane sogaðist út úr vélinni. Vélin er sögð hafa brotlent og að 19 manns hafi látist í slysinu. Frane lenti þó í heysátu og lifði slysið af með einungis smávægileg meiðsli.

Árið 1966 mun Frane hafa verið í rútu sem hafi lent ofan í á, vegna ísingar. Fjórir létust í því slysi en hann synti í land með nokkra marbletti og skurði.

Þá kviknaði í bíl hans árið 1970 en Frane náði að stökkva út úr bílnum áður en bensíntankurinn sprakk. Þremur árum seinna bilaði bensíndæla í bíl hans með þeim afleiðingum að eldur kom inn í bílinn í gegnum lofttúður miðstöðvarinnar. Allt hár á Frane sviðnaði en annars slapp hann ómeiddur.

Árið 1995 mun Frane hafa orðið fyrir rútu og ári seinna keyrði hann fram af fjallvegi. Bíll hans fór um 90 metra niður fjallshlíð þar sem hann á að hafa sprungið. Frane var þó ekki í bílnum því hann á að hafa komist út um glugga og fannst í trjám í miðri hlíðinni.

Árið 2003, þegar Frane var 73 ára gamall, vann hann 113 milljónir króna í lottóverðlaun. Árið 2010 gaf hann þó afganginn af verðlaunafénu til fjölskyldu sinnar.

Teiknimyndina um Frane Selak má sjá hér að neðan, en hann er allt annað en ánægður með hana. Fjölmiðlar í Króatíu segja hann kvarta yfir því að vera með yfirvaraskegg í teiknimyndinni og að hann hafi ekki fengið krónu frá höfundum hennar.

„Kannski græða þeir mikið á þessu, á meðan ég lifi á ellieyri. Sendið mér í það minnsta þúsund dali,“ er haft eftir Frane Selak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×