Erlent

Vildu nýjan hund en fundu þann gamla

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölskylda í Eatontown í New Jersey í Bandaríkjunum ætlaði nýlega að fá sér nýjan hund í tilefni tíu ára afmælis einnar í fjölskyldunni. Þegar fellibylurinn Sandy fór yfir svæðið, í október 2012, flúði hundur þeirra af heimilinu og fannst ekki aftur.

Fimm manna fjölskyldan fór nýlega í hundaathvarf til að ættleiða nýjan hund, en viti menn, fyrsti hundurinn sem þau sáu í athvarfinu var gamli hundur þeirra, Reckless. Starfsmenn athvarfsins höfðu þó gefið hundinum nafnið Lucas.

„Hann var orðinn aðeins stærri, því hann hafði fengið nóg að borða,“ segir Chuck James við AP fréttaveituna. „Um leið og hann lagðist við fætur konunnar minnar var ég fullviss um að þetta væri hann.“

Chuck segir að fjölskyldan hafi leitað að Reckless í marga mánuði eftir fellibylinn en leitin hafi ekki borið árangur. „Við héldum alltaf í vonina, en á endanum kemur tími til að halda áfram.“

Hann var beðinn um að sanna að hann væri eigandi hundsins og fékk vin sinn til að senda sér mynd af fjölskyldunni með Reckless.

„Við erum svo ánægð með að hafa fengið hann aftur,“ segir Chuck. „Guði sé lof fyrir athvörf sem þessi, þar sem dýrin eru ekki aflífuð. Því í hvert sinn sem svona dýr er drepið, gæti einhver misst góðan vin.“

Fjölskyldan býr nú á hóteli því enn standa yfir viðgerðir á húsi þeirra sem skemmdist mjög í fellibylnum. En um helgina fór fjölskyldan í útilegu til að fagna heimkomu Reckless.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×