Erlent

Eftirlitsmennirnir í faðmi fjölskyldna sinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, tók á móti eftirlitsmönnunum á flugvelli í Berlín. Með henni er Axel Schneider, leiðtogi eftirlitsmannanna.
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, tók á móti eftirlitsmönnunum á flugvelli í Berlín. Með henni er Axel Schneider, leiðtogi eftirlitsmannanna. Vísir/AP
Eftirlitsmenn ÖSE sem hafa verið í haldi aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu í meira en viku eru komnir til Berlín. Leiðtogi eftirlitsmannanna, hinn þýski Axel Schneider, sagði þá alla bera sig vel. Fjórir Þjóðverjar voru í haldi, einn Tékki, einn Dani og einn Pólverji auk fimm úkraínskra hermanna.

Flogið var með eftirlitsmennina til Berlínar í kvöld, þar sem þeir hittu fjölskyldur sínar.

„Við erum allir mjög ánægðir. Við sáum fjölskyldur okkar en þá gátum við ekki ímyndað okkur í gær,“ sagði Schneider. „Hugsaðu um það að í gær var verið að skjóta á okkur.“

Leiðtogi aðskilnaðarsinnanna í Slovyansk sagði mennina ekki hafa verið látna lausa. „Heldur eru þeir að fara frá okkur, eins og þeim var lofað,“ sagði Vyacheslav Ponomarev við AP fréttaveituna.

Sendiboði Vladimír Pútín, forseta Rússlands, kom að viðræðunum um að fá mennina lausa og sagði í dag að þeim hefði verið sleppt af mannúðarástæðum. Utanríkisráðuneyti Úkraínu segir aftur á móti að mönnunum hafi verið sleppt fyrir tilskipan yfirvalda í Rússlandi. Það sýni enn og aftur að aðskilnaðarsinnarnir taki við skipunum frá Kremlin.

Utanríkisráðuneyti Rússlands ítrekar að þetta hafi verið ákvörðun aðskilnaðarsinnanna sem stjórni Slovyansk og var ákvörðunin sögð til vitnis um hugrekki þeirra.

Þrátt fyrir að þeim hafi verið sleppt úr haldi jókst spenna á svæðinu gífurlega í dag. Að minnsta kosti 42 létust í bardögum á milli stuðningsmanna stjórnvalda og stjórnarandstæðinga í borginni Odessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×