Erlent

Gætu fengið lífstíðardóm fyrir samkynhneigð

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Mennirnir tveir í réttarsalnum.
Mennirnir tveir í réttarsalnum. vísir/afp
Tveir karlmenn í Úganda, Kim Mukisa og Jackson Mukasa, eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir að stunda kynlíf og mættu þeir í réttarsal í gær í von um að verða látnir lausir gegn tryggingu. Reiknað er með að þeir lýsi báðir yfir sakleysi sínu.

Mennirnir eru fyrstu samkynhneigðu einstaklingarnir sem réttað verður yfir eftir að ný lög tóku gildi í febrúar sem hertu viðurlög við samkynhneigð til muna. Voru þeir ákærðir fyrir hátterni sem stjórnvöld í Úganda telja ónáttúruleg en þeir voru handteknir í janúar eftir að þeir flúðu frá æstum múg.

Samkvæmt nýju lögunum geta einstaklingar sem ítrekað stunda kynlíf með öðrum af sama kyni átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Þá hefur verið sett bann við „samkynhneigðum áróðri“ og ber almenningi skylda til þess að tilkynna samkynhneigða til yfirvalda.

Mennirnir tveir voru þó handteknir á grundvelli gömlu laganna og telja lögmenn þeirra að þeir verði látnir lausir gegn tryggingu og réttað verði yfir þeim síðar.

Yoweri Museveni, forseti Úganda, hefur verið gagnrýndur fyrir að undirrita nýju lögin og er hann sakaður um að hafa með því reynt að afla sér fylgis í fyrirhuguðum forsetakosningum sem fara fram árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×