Íslenski boltinn

Úrslitaleiknum frestað vegna handboltaleiks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm

Mótastjórn KSÍ ákvað í gær að færa úrslitaleik FH og Breiðabliks í deildabikarkeppninni aftur um einn dag.

Leikurinn fer nú fram klukkan 19.00 á föstudagskvöldið en upphaflega var áætlað að hann myndi fara fram á morgun, sumardaginn fyrsta.

Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, sagði að FH-ingar hafi óskað eftir því að færa leikinn þar sem að handboltalið félagsins mætir Haukum í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildarinnar í Kaplakrika annað kvöld.

„Við fórum vel yfir þetta mál og það tók nokkuð langan tíma að finna lausn,“ sagði Birkir í samtali  við Vísi í dag. „En þetta varð niðurstaðan og leiktíminn var sameginleg ákvörðun FH og Breiðabliks.“

KR og Fram eigast svo við í meistarakeppni KSÍ á mánudagskvöldið en sá leikur skarast á við viðureign KR og Grindavíkur í lokaúrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta.

„KR-ingar létu okkur vita af þessu í gær og ég veit ekki hvort við náum að bregðast við þessu. Við erum að skoða það mál,“ sagði Birkir.

Báðir knattspyrnuleikirnir fara fram á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Þess má geta að FH leiðir 1-0 í undanúrslitarimmu sinni gegn Haukum í Olísdeild karla eftir sigur á Ásvöllum í gær.

Þá er KR með 1-0 forystu gegn Grindavík í rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta en annar leikur liðsins fer fram á föstudagskvöld. Vinni KR-ingar einnig þá geta þeir tryggt sér titilnn í DHL-höllinni á mánudaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.