Erlent

Skreið í sjö tíma áður en hann fékk hjálp

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Skjáskot
Göngumaður lifði af hátt fall niður fjallshlíð og skreið í sjö tíma til að fá hjálp. Maðurinn er frá Bandaríkjunum og heitir Patrick Luk. Hann var á göngu á mánudaginn upp fjall, og ætlaði að renna sér niður aftur á skíðum.

Snjóhengja sem hann var að ganga yfir gaf sig með þeim afleiðingum að hann féll niður fjallið. Hann sagði hjálminn sem hann var með hafa bjargað honum, en það stórsá á andliti hans. Þá meiddist hann illa á hnjánum.

„Þetta var frekar ógnvænlegt. Ég reyndi að standa upp og átti erfitt með að ganga. Ég renndi mér niður hlíðina eins langt og ég komst á bakinu,“ sagði Patrick við sjónvarpsstöðina VMUR 9 í Bandaríkjunum.

Lögreglumenn hófu leit að honum eftir að móðir hans tilkynnti þeim að hann hefði ekki skilað sér heim. Þeir fundu hann þó ekki fyrr en hann komst að bíl sínum eftir að hafa skriðið í sjö klukkutíma.

„Hann var mjög kaldur og gat ekki talað,“ segir Wayne Saunders, einn leitarmannanna. „Þegar við settum hann í sjúkrabílinn skalf hann. Ég er ekki viss um hvort hann hefði getað komist mikið lengra, en mér finnst þetta mikið afrek hjá honum.“

Sjónvarpsfrétt um atvikið og viðtali við Patrick má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×