Erlent

Öllu herliði verður beitt í Úkraínu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Olexander Túrtsínov, forseti Úkraínu, segir að öllu herliði landsins verði beitt til að koma í veg fyrir aðgerðir aðskilnaðarsinna, en þeir hafa lagt undir sig lögreglustöðvar og opinberar byggingar í austurhluta landsins. 

Allt er nú á suðupunkti í Úkraínu, en að minnsta kosti tveir létust og fimm særðust í skotbardaga á milli úkraínskra sérsveitarmanna og vopnaðra aðskilnaðarsinna í borginni Sloviansk í austurhluta landsins í dag. Aðskilnaðarsinnarnir réðust í gær inn í lögreglustöðvar og opinberar byggingar í borginni og lögðu þær undir sig. Þá kom einnig til skotbardaga og mótmæla í nærliggjandi borgum.

Stjórnvöld í Kænugarði skilgreina innrásirnar sem hryðjuverk.  Síðdegis í dag sendi forseti landsins, frá sér tilkynningu þar sem hann boðaði víðækar aðgerðir gegn aðskilnaðarsinnum. Allar hersveitir landsins munu á morgun reyna að endurheimta opinberar byggingar og koma í veg fyrir frekari aðgerðir mótmælenda.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakar yfirvöld í Rússlandi um að hvetja til óeirða og varaði í gær við refsiaðgerðum, dragi Rússar herlið sitt ekki frá landamærum Úkraínu.  Þá hefur Anders Fogh Rasmusen, framkvæmdastjóri NATO, lýst yfir þungum áhyggjum af ástandinu.

Fyrirhugað er að neyðarfundur verði haldinn í vikunni, fulltrúum Rússlands, Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Úkraínu. Þá fer Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, til Kænugarðs í þarnæstu viku, til að funda með stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×