Innlent

Obama vill endurskoða samstarf við Íslendinga í ljósi hvalveiða

Barack Obama forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti sendi í gær bandaríska þinginu minnisblað þar sem hvalveiðar Íslendinga eru harðlega gagnrýndar. Íslendingar eru hvattir til þess að hætta að vera hvalveiðiþjóð og gerast í stað þess hvalaskoðunarþjóð, líkt og Bandaríkjamenn hafi gert á sínum tíma.

Frá minnisblaðinu er greint í hinu nýstofnaða blaði Iceland Mag en minnisblaðið er einnig aðgengilegt á heimasíðu Hvíta hússins. Forsetinn beinir því til fjölmargra bandarískra stofnana að þær ræði hvalveiðarnar við Íslendinga og segir hann að allt tvíhliða samstarf þjóðanna verði nú endurskoðað í þessu ljósi.

Aðeins er minnst á veiðar Íslendinga á langreyð í minnisblaðinu en ekki verið að tala um hrefnuveiðar. Obama segir að með veiðum á langreyðinni stefni Íslendingar tegundinni í voða og grafi undir tilraunum alþjóðasamfélagsins til að vernda hvalina.

Í minnisblaðinu kemur fram að Alþjóðahvalveiðiráðið meti það sem svo að hægt sé að veiða 46 langreyðar á Norður Atlantshafi án þess að það komi niður á stofninum. Íslendingar hafi hins vegar veitt 134 dýr árið 2013 og geri nú ráð fyrir að veiða 154 á þessu ári og þeim næstu.

Þá segir forsetinn að öll samskipti ríkjanna skuli nú miða að því að fá Íslendinga til þess að hlíta ályktunum Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni og skulu ráðherrar hans nú endurmeta hvort við hæfi sé að heimsækja Ísland, í ljósi þessa.

Þá segir að Ríkisstjórn Íslands verði gerð þessi staða ljós þegar í stað.


Tengdar fréttir

Fordæma ákvörðun bandarískra stjórnvalda

Ungir sjálfstæðismenn fordæma þá ákvörðun bandarískra stjórnvalda að ætla að hefja á ný þvingunaraðgerðir gegn Íslendingum vegna hvalveiða en þetta kemur fram í ályktun frá sambandinu.

Hvalveiðar Íslands komnar á borð Obama

Innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðfest við Barack Obama forseta að hvalveiðar Íslendinga í viðskiptaskyni minnki skilvirkni samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.