Enski boltinn

Pellegrini: Úrslitin ráðast ekki á Anfield

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Pellegrini telur ekki upp úr kassanum of snemma
Pellegrini telur ekki upp úr kassanum of snemma vísir/getty
Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City segir úrslit ensku úrvalsdeildarinnar ekki ráðast þegar lið hans sækir Liverpool heim á Anfield Road um næstu helgi.

City er stigi á eftir Liverpool og á leik til góða. Chelsea er stigi á undan Liverpool en hefur leikið leik meira og tveimur leikjum meira en City.

Liverpool á eftir að fá bæði City og Chelsea í heimsókn en staðan er þannig að vinni annað hvort Liverpool eða City alla þá leiki sem liðin eiga eftir þá verður það lið meistari sama hvernig leikir Chelsea fara. Því hefur leikur Liverpool og Manchester City verið settur upp sem einskonar úrslitaleikur um næstu helgi.

„Næst eigum við mikilvægan leik gegn Liverpool. Við höfum mikinn tíma til að undirbúa okkur en ég held ekki að sá leikur eigi eftir að ráða úrslitum,“ sagði Pellegrini eftir sigur City á Southampton í gær.

„Eftir leikinn eigum við eftir að leika sex leiki og Liverpool fjóra.“

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea segir titilinn vera í höndum Manchester City.

„Ég hef beðið eftir því að vera í efsta sæti og þurfa aðeins að treysta á okkur sjálfa en sú staða hefur aldrei komið upp,“ sagði Mourinho eftir sigur Chelsea á Stoke í gær.

„Við eigum eftir að mæta Liverpool og kljást um þrjú stig þar en við eigum ekki eftir að mæta Manchester City þannig að þeir hafa þetta í sínum höndum.“

Liverpool getur náð toppsætinu af Chelsea á nýjan leik þegar liðið sækir West Ham heim í dag klukkan 15:00 í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×