Erlent

Finnur ennþá lykt af blóðinu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Pistorius grét við réttarhöldin í dag.
Pistorius grét við réttarhöldin í dag. vísir/afp
Suðurafríski spretthlauparinn Oscar Pistorius bar vitni í dag í fyrsta skipti síðan réttarhöld yfir honum hófust. Hann er ákærður fyrir að myrða kærustu sína, Reevu Steenkamp, í febrúar í fyrra.

Pistorius bað fjölskyldu Steenkamp afsökunar áður en verjandinn Barry Roux hóf að spyrja hann spurninga. Pistorius sagðist vera hræddur við að sofa og hann vakni dauðhræddur um miðjar nætur og finni stundum blóðlykt.

Fyrir hádegi talaði Pistorius um barnæsku sína en foreldrar hans skildu þegar hann var ungur. Hann ólst upp hjá móður sinni og segir hann hana hafa óttast um öryggi fjölskyldunnar og geymt skotvopn undir kodda sínum. Hún lést þegar hann var fimmtán ára gamall.

Eftir hádegi talaði hann um atburði hinnar örlagaríku nætur og hélt Pistorius sig við sögu sína. Hann sagðist hafa haldið að Steenkamp væri innbrotsþjófur þegar hann hleypti fjórum skotum af skammbyssu sinni í gegnum baðherbergishurð. Steenkamp var inni á baðinu og hæfðu þrjú skotanna hana - eitt í læri, annað í handlegg og það þriðja í höfuðið.

„Ég var einfaldlega að reyna að vernda hana,“ sagði Pistorius, sem bætti því síðan við að hann geti ekki hugsað sér að handleika skotvopn aftur.

Þá sagði Pistorius að trú væri honum mikilvæg. Hann hafi ætíð viljað kristinn lífsförunaut og fundið hann í Steenkamp. Hún hafi verið mjög kristin.

Verjandinn bað þá um réttarhlé þar til í fyrramálið og var orðið við þeirri bón. Pistorius á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann sakfelldur.


Tengdar fréttir

„Stundum er ég hrædd við þig“

Farið var í gegnum farsíma Oscars Pistorius og unnustu hans Reevu Steenkamp, sem hann skaut til bana á Valentínusardag í fyrra.

Pistorius ákærður fyrir morð

Suðurafríski hlaupakappinn Oscar Pistorius var handtekinn í fyrrinótt og síðar ákærður fyrir að hafa orðið kærustu sinni að bana.

Hver er Oscar Pistorius?

Suður-afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius er grunaður um að hafa myrt kærustu sína af yfirlögðu ráði að morgni 14. febrúar. En hver er þessi margumtalaði maður?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×