Erlent

Pistorius ákærður fyrir morð

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Oscar Pistorius leiddur út af heimili sínu í lögreglufylgd.
Oscar Pistorius leiddur út af heimili sínu í lögreglufylgd. Nordicphotos/AFP
Suðurafríski hlaupakappinn Oscar Pistorius var handtekinn í fyrrinótt og síðar ákærður fyrir að hafa orðið kærustu sinni að bana.

Kærasta hans, fyrirsætan Reeva Steenkamp, fannst látin á heimili hans í höfuðborginni Pretoríu, með fjögur skotsár á höfði og handlegg. Þetta gerðist um fjögurleytið að nóttu til í afgirtu hverfi auðmanna, þar sem Pistorius býr í glæsihúsi.

Í suðurafrískum fjölmiðlum var fullyrt að Pistorius hefði haldið að hún væri innbrotsþjófur. Nokkrir fjölmiðlar leiddu líkur að því að hún hefði ætlað að koma honum á óvart á Valentínusardaginn. Lögreglan vildi þó ekki staðfesta slíkar vangaveltur.

Lögreglan staðfesti hins vegar að hún hefði áður þurft að skipta sér af atvikum á heimili Pistoriusar.

Þá hefur lögreglan rætt við vitni, bæði nágranna og aðra sem „heyrðu hvað gerðist fyrr um kvöldið og þegar skotin riðu af“ að því er haft er eftir Denise Beukes, talskonu lögreglunnar.

Pistorius er einn þekktasti íþróttamaður Suður-Afríku. Hann keppti á Ólympíuleikunum í London í sumar og varð þá fyrstur til að taka þátt í hlaupaíþróttum á Ólympíuleikum með tvo gervifætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×